Stytting vinnuvikunnar hjá Vaktavinnufólki
Nú þegar innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu er lokið eða að verða lokið á vinnustöðum ríkis og sveitarfélaga er undirbúningur undir styttinguna hjá vaktavinnufólki kominn á fullan skrið og tími til kominn fyrir alla sem starfa í vaktavinnu á vinnustöðum hins opinbera að kynna sér málið.
Mikið af kynningarefni hefur þegar verið gefið út og breytir engu hvort starfsfólki hentar betur að lesa sér til eða horfa á stutt og vel framsett kynningarmyndbönd, allir geta fundið kynningarefni við sitt hæfi. Vinnuvika vaktavinnufólks mun að lágmarki styttast úr 40 stundum í 36. Hún mun styttast enn meira hjá þeim sem eru á þyngstu vöktunum, allt niður í 32 stundir.
Samið var um styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB og annarra stéttarfélaga opinberra starfsmanna í mars 2020. Hjá vaktavinnufólki fylgja þessari byltingu í vinnutíma ákveðnar breytingar á launamyndunarkerfi sem gott er að kynna sér.
BSRB og aðrir samningsaðilar standa að vefnum www.betrivinnutimi.is þar sem settar hafa verið inn leiðbeiningar fyrir starfsfólk og stjórnendur svo allir geti kynnt sér þær breytingar sem framundan eru.
Yorumlar