Aðildarfélög BSRB kjósa um verkföll
Atkvæðagreiðsla stendur nú yfir hjá félögum BSRB um verkfallsboðun um það bil níu hundruð starfsmanna fjögurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Verkfallsboðunin nær til starfsfólks í Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ. Atkvæðagreiðslunni lýkur á laugardag.
Kjaradeilan snýr að sameiginlegri kröfu félaganna um að starfsfólk sveitarfélaga, sem vinna sambærileg störf innan stofnunar eða sveitarfélags og aðrir hafa fengið 1.janúar, fái sömu laun. Þá standa til frekari aðgerðir um landið sem næðu til hátt í fimmtán hundruð manns.
Verði verkfallsboðunin samþykkt mun starfsfólk meðal annars leikskóla, mötuneyta, grunnskóla og þjónustu við fatlað fólk, frístundamiðstöðva, sundlauga, íþróttamiðstöðva í sveitarfélögunum fjórum leggja niður störf fimmtánda og sextánda maí.
„Það er mikill hugur í fólki. Enda blasir það við að þetta er misrétti sem þarf að leiðrétta,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB í sjónvarpsfréttum RÚV í gær. „Ef við horfum yfir árið þá getur munað um 25% í launahækkunum, sem er mjög mikið. Þetta er fólk sem er almennt á launabilinu 400 til 470 þúsund, þannig þetta telur allt. Það er skýr dómaframkvæmd fyrir því að atvinnurekendur beri ábyrgð á jafnrétti og að það sé ekki verið að mismuna fólki í launum,“ sagði Sonja.
Comments