Baráttufundir í sjónvarpið vegna samkomubanns
Í fyrsta skipti í nærri öld mun íslenskt launafólk ekki koma saman í kröfugöngu og ganga á baráttufundi á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins, 1. maí næstkomandi. Þess í stað stendur verkalýðshreyfingin fyrir skemmtidagskrá í Sjónvarpinu að kvöldi 1. maí.
Kórónaveirufaraldurinn kemur í veg fyrir hefðbundna dagskrá þann 1. maí, enda samkomubann í gildi í landinu. Þetta verður því í fyrsta skipti síðan árið 1923 að íslenskt launafólk safnast ekki saman þennan dag til að leggja áherslu á kröfur sínar.
Þess í stað munu heildarsamtök launafólks í landinu, BSRB, ASÍ, BHM og KÍ, standa fyrir sérstakri skemmti- og baráttusamkomu í Hörpu sem sjónvarpað verður á RÚV föstudaginn 1. maí klukkan 19:40.
Á þessum sögulega viðburði munu landsþekktir tónlistarmenn og skemmtikraftar koma saman auk þess sem flutt verða hvatningarorð frá forystu verkalýðshreyfingarinnar. Meðal listamanna sem koma fram eru Ragnheiður Gröndal, Bubbi Morthens, Amabadama, Jói P og Króli, Ellen Kristjáns og Auður, Jakob Birgisson uppistandari, KK og Lúðrasveit verkalýðsins.
Þrátt fyrir að ekki verði hægt að fara í kröfugöngu þetta árið verður áfram hægt að búa til sín eigin kröfuspjöld. Að þessu sinni verður það gert í gegnum Facebook, og verður það kynnt nánar þegar nær dregur. Þá getur launafólk sýnt stuðning sinn við baráttu verkalýðshreyfingarinnar í verki með því að merkja prófílmynd sína 1. maí.
BSRB hvetur alla til þátttöku á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins á Facebook og til að horfa á skemmtidagskrána á RÚV um kvöldið.