top of page

Ábendingar um brot á starfsmönnum í lægra starfshlutfalli

Dæmi eru um að atvinnurekendur hafi lækkað starfshlutfall starfsmanna en krefjist vinnuframlags umfram hið nýja hlutfall. Ábendingar um þetta hafa borist BHM og BSRB, sem og aðildarfélögum bandalaganna, að því er fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu frá bandalögunum tveimur.

Þetta gengur þvert gegn lagabreytingum sem Alþingi gerði nýverið til að auðvelda atvinnurekendum að halda starfsfólki og koma í veg fyrir uppsagnir vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa af völdum COVID-19 heimsfaraldursins.

Atvinnurekendur geta nú lækkað starfshlutfall allt niður í 25 prósent og getur starfsfólkið fengið hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti. Óheimilt er að krefjast vinnuframlags frá starfsfólki umfram hið nýja starfshlutfall, enda kemur lækkun á því til vegna samdráttar í þjónustu fyrirtækja og fækkun verkefna.

BHM og BSRB hvetja stjórnendur fyrirtækja og stofnana til að fara í einu og öllu eftir lögunum og munu bregðast hart við ábendingum um brot. Þá minna heildarsamtökin á að þessum lagaheimildum er ætlað að hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaði á þessum erfiðu tímum. Þegar þessum tímabundnu þrengingum lýkur munu fyrirtækin þurfa aftur á sínum starfsmönnum að halda í hærra starfshlutfalli.

Það er með öllu óviðunandi að fyrirtæki reyni að nýta sér aðstæður starfsmanna sem eru að leggja sitt af mörkum til að vinnustaðurinn komist í gegnum tímabundna erfiðleika með því að taka á sig kjaraskerðingu.

bottom of page