Landsfundur 15 bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB álykta eftirfarandi.
Landsfundur stéttarfélaga bæjarstarfsmanna haldinn dagana 5. og 6. febrúar 2020 í Langaholti í Staðarsveit á Snæfellsnesi, skorar á kjörna fulltrúa sveitarfélaga að axla ábyrgð í kjarasamningagerð við félagsmenn aðildarfélaga BSRB. Bæjarstarfsmenn innan vébanda BSRB bera uppi almannaþjónustu sveitarfélaga en þeir hafa nú verið án kjarasamnings í tíu mánuði.
Landsfundurinn krefst þess að sveitarfélögin hætti þeim ljóta leik að ota samningnefnd sinni fram með tilboð sem mismunar starfsmönnum þeirra launalega og er óásættanlegt í samanburði við aðra kjarasamninga sem sveitarfélögin hafa nú þegar undirritað. Við samningaborðið þarf að semja um ásættanleg kjör, ganga frá ákvæðum um styttingu vinnuvikunnar og jöfnun launa milli markaða.
Þolinmæði stéttarfélaga bæjarstarfsmanna er þrotin og við erum tilbúin til að hefja aðgerðir til að knýja fram réttlátan kjarasamning fyrir okkar félagsmenn. Landsfundurinn krefst þess að sveitarfélögin gangi til samninga við starfsfólk sitt strax.