Fjölmörgum öðrum málum sinnt á árinu
Í pistlinum segir Sonja að þó mikil vinna hafi farið í að reyna að ná kjarasamningi hafi BSRB einnig unnið að fjölmörgum öðrum mikilvægum málefnum. Bandalagið gaf út skýrslu um barnabótakerfið og hélt vel heppnað málþing um kulnun. Eitt af langtímabaráttumálum BSRB um lengingu fæðingarorlofsins er að komast í höfn og bandalagið hefur áfram staðið vörð um heilbrigðiskerfið, jafnréttismál og aðra mikilvæga málaflokka.
Sonja segir einnig frá því að alls hafi rúmlega 170 fjölskyldur þegar flutt inn í íbúðir hjá Bjargi íbúðafélagi, sem stofnað var af BSRB og ASÍ, og að uppbygging félagsins muni halda áfram á næstu árum.
„Það er ljóst að kjarasamningarnir verða stóra málið á fyrri hluta næsta árs. Vonandi tekst að semja án þess að það þurfi að grípa til aðgerða,“ segir Sonja. „Samstaða opinberra starfsmanna er mikilvægasta vopnið í okkar vopnabúri. Saman höfum við náð mörgum góðum sigrum í gegnum árin. Og saman munum við lenda þessum samningum!“