Kjaradeilu við sveitarfélögin einnig vísað til ríkissáttasemjara
Aðildarfélög BSRB sem eiga í kjarasamningsviðræðum við Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa vísað viðræðunum til ríkissáttasemjara. Í síðustu viku slitnaði upp úr viðræðum við ríkið og í framhaldinu hófst ferli aðildarfélaganna um vísun deilnanna til ríkissáttasemjara.
„Okkar áherslur hafa legið fyrir í hálft ár eða allt frá því síðustu kjarasamningar runnu út. Kröfurnar eru þær sömu gagnvart ríkinu, Reykjavíkurborg og Sambandinu og því er það eðlilegt skref að ríkissáttasemjari taki við verkstjórninni og þannig sé gætt að samræmi,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Kjarasamningar flestra aðildarfélaga bandalagsins hafa verið lausir frá því í lok mars og hafa fundir staðið yfir frá því um það leyti. „Það er auðvitað miður að vera svo gott sem á sama stað í umræðu um styttingu vinnuvikunnar sex mánuðum síðar en ég er vongóð um að nú komist málin á hreyfingu,“ segir Sonja.
Þá á enn eftir að taka til umræðu jöfnun launa milli markaða, launaþróunartryggingu og launaliðinn.
BSRB hefur lagt þunga áherslu á að samið verði um jöfnun launa milli opinbera vinnumarkaðarins og hins almenna, enda er skýrt kveðið á um jöfnun launa milli markaða í samkomulagi sem gert var í tengslum við breytingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna árið 2016.
Í samkomulaginu skuldbundu ríki og sveitarfélög sig til að leiðrétta launamuninn innan tíu ára.