top of page

Félagsmenn BSRB hjá ríki, munu fá 105 þúsund króna innágreiðslu 1. ágúst.

Félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríkinu munu fá 105 þúsund króna innágreiðslu 1. ágúst frá ríkinu vegna tafa sem orðið hafa á gerð kjarasamninga samkvæmt endurskoðaðri viðræðuáætlun.

Í endurskoðaðri viðræðuáætlun sem aðildarfélög BSRB og samninganefnd ríkisins hafa gert með sér kemur fram að stefna eigi að því að ljúka gerð nýs kjarasamnings fyrir 15. september, en samningar flestra aðildarfélaga bandalagsins hafa verið lausir frá því í apríl. Í samningaviðræðum sem staðið hafa yfir undanfarið hefur verið unnið að samkomulagi um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar, launaþróunartryggingu og fleira. Bæði BSRB og samninganefnd ríkisins leggja áherslu á að vanda til við þá vinnu.

Upphæðin miðast við fullt starf og fá starfsmenn í hlutastörfum greiðsluna í réttu hlutfalli við starfshlutfall. BSRB gerir eftir sem áður kröfu um að nýir kjarasamningar verði afturvirkir frá 1. apríl.

Þá sammælast BSRB og ríkið um það í áætluninni að friðarskylda ríki til 15. september. Hlé verður gert á viðræðum á meðan skrifstofa Ríkissáttasemjara er lokuð í sumar, enda hefur reynslan sýnt að lítið gengur í kjaraviðræðum yfir hásumarið.

bottom of page