Samningafundur um vaktavinnu alla helgina.
Fulltrúar BSRB hafa setið á fundi ásamt viðsemjendum í húsakynnum ríkissáttasemjara í allan dag og hafa fundir verið boðaðir alla helgina til þess að freista þess að ná saman um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar fyrir vaktavinnufólk.
„Það eru allir aðilar sammála um að nú ætlum við að gera atlögu að því að klára þessa umræðu um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Krafan um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar er ein af stærstu kröfum BSRB í kjaraviðræðunum, sem staðið hafa frá því samningar nær allra aðildarfélaga bandalagsins losnuðu í byrjun apríl 2019. Nokkuð er síðan samkomulag náðist um útfærslu á þessu mikla hagsmunamáli launafólks fyrir dagvinnufólk en ekki hefur tekist að ná saman um útfærsluna fyrir þá vinnustaði þar sem unnið er í vaktavinnu.
Öðrum stórum málum er einnig ólokið, til dæmis kröfum um jöfnun launa milli markaða, launaþróunartryggingu og fleiri mál sem BSRB og aðildarfélög bandalagsins hafa lagt áherslu á í kjaraviðræðunum. Þá á eftir að ræða launahækkanir, sem eru ekki á sameiginlegu borði BSRB heldur á forræði einstakra aðildarfélaga.